Um Galleri Koltru

Handverkshópurinn Koltra var stofnaður 1995 og er því með elstu handverkshópum á Vestfjörðum. Koltra er staðsett á Þingeyri og dregur nafn sitt af Kolturshorni sem sést mjög vel í Haukadal í Dýrafirði.

Tilgangur með stofnun handverkshópsins var að hjálpa meðlimum hópsins og heimamönnum að koma sínum munum á framfæri og hefur það gengið vonum framar.

Handverkshópurinn Koltra stofnaði fljótlega Gallerí Koltru sem selur muni meðlima handverkshópsins.
Í dag er Gallerí Koltra sem og upplýsingamiðstöð ferðamanna staðsett í gamla Salthúsinu sem er jafnframt elsta hús Þingeyrar og ein hin mesta prýði Þingeyrar. Gefur því að skilja að húsið á sér langa sögu.

Salthúsið er byggt 1778 á árum dönsku konungsverslunarinnar og var húsið í eigu hennar til 1787 og þjónaði þá þeim tilgangi sem nafn þess dregur af. Frá 1787 var verslun rekin í Salthúsinu allt til ársins 1927 af hinum ýmsu verslunareigendum. Í framhaldi eignast Kaupfélag Dýrfirðinga húsið frá 1930 til 1994 þegar það var afhent Húsafriðun Ríkisins til varðveislu, þá tók Ísafjarðarbær við varðveislu þess.

Húsið var þá tekið niður og endurbyggt á sínum upprunalega stað 2009 og 2010 taldist verkið fullunnið. Höfðu þá heimamenn áhyggjur af því hvaða hlutverki húsið skyldi gegna en það er nú komið í það fallega hlutverk að miðla hannyrðum Dýrfirðinga og upplýsingum til ferðamanna og sveitunga.
Í Gallerí Koltru er að finna margs konar handverk eftir dýrfirskt handverksfólk. Má þar nefna handunnar sápur, skartgripi, prjónavörur af ýmsu tagi, s.s. vettlinga, húfur, sokka og hinar margrómuðu lopapeysur í öllum stærðum og litasamsetningum. En of langt mál er að telja upp allt sem þar er að finna.

Allir ættu að finna eitthvað fyrir sig og sína í Gallerí Koltru sem er opið yfir sumartímann frá 15. maí og til 15. september eða þar um bil. Sjón er sögu ríkari og við hlökkum til að taka á móti gestum, innlendum jafnt sem erlendum ferðamönnum.
Gallerí Koltra er tilgreind sem svæðisupplýsingamiðstöð ferðamanna í Dýrafirði og getur ferðamaðurinn sótt sér upplýsingar um svæðið, áhugaverða staði hvort sem leiðin liggur norður eða suður fyrir hjá starfsmönnum Koltru sem þekkja sitt heimasvæði og þó víðar væri leitað mjög vel.